Fótbolti

Norskur knattspyrnumaður handtekinn | Grunaður um hagræðingu úrslita

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Follo komst í úrslit norska bikarsins árið 2010 eftir að hafa slegið út Lilleström og Rosenborg. Strömsgodset reyndist þó of stór biti í úrslitaleiknum.
Follo komst í úrslit norska bikarsins árið 2010 eftir að hafa slegið út Lilleström og Rosenborg. Strömsgodset reyndist þó of stór biti í úrslitaleiknum. Nordicphotos/Getty
Lögregluyfirvöld í Noregi hafa handtekið ónafngreindan leikmann knattspyrnufélagsins Follo sem leikur í norsku C-deildinni. Viðkomandi er grunaður um að hafa komið að hagræðingu úrslita í deildarleik á dögunum.

Follo tapaði 4-3 gegn Östsiden IL þann 24. júní eftir að hafa komist í 3-0 í leiknum. Forráðamenn Follo greindu norska knattspyrnusambandinu frá grun sínum um að úrslitunum hefði verið hagrætt og í hönd fór lögreglurannsókn.

Málið vakti athygli almennings þegar knattspyrnusambandið frestaði viðureign Ullensaker/Kisa og Ham Kam í b-deild norska boltans síðastliðinn sunnudag. Á mánudag var boðað til blaðamannafundar þar sem staðfest var að rannsókn á hagræðingu úrslita í leikjunum tveimur stæði yfir.

„Það er augljóslega eitthvað merkilegt og alvarlegt að gerast í rannsókninni. Engu að síður er um leikmann og starfsmann aðildarfélags okkar að ræða svo ég verð að minna á að leikmaðurinn er saklaus þar til hann er fundinn sekur í málinu," hafði Reuters eftir Kjetil Siem framkvæmdastjóra norska knattspyrnusambandsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×