Fótbolti

Þóra Björg: Erum topplið í Evrópu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þóra Björg bregður á leik með stelpunum í landsliðinu.
Þóra Björg bregður á leik með stelpunum í landsliðinu. Mynd/Ossi Ahola
Þóra Björg Helgadóttir, markvörður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, er klár í slaginn fyrir viðureign Íslands og Ungverjalands í undankeppni Evrópumótsins sem fram fer á Laugardalsvelli í dag.

Þóra spilar með Ldb Malmö í Svíþjóð líkt og Sara Björk Gunnarsdóttir en liðið varð sænskur meistari á síðustu leiktíð og lítur vel út í upphafi móts.

„Við erum á toppnum ásamt tveimur öðrum liðum. Okkur var spáð þriðja sæti þannig að gengið er gott. Miðað við liðið sem Tyresö hefur sankað að sér erum við sáttar ennþá og ætlum auðvitað að halda okkur á toppnum," segir Þóra.

Meðal þeirra leikmanna sem Tyresö hefur fengið til sín er hin brasilíska Marta sem hefur verið jafnbesti leikmaður heims undanfarin ár. Þrátt fyrir það virðist liðið ekki ósigrandi en öll toppliðin þrjú hafa tapað tveimur leikjum í upphafi móts.

Þóra er ekki í nokkrum vafa um styrkleika sænsku deildarinnar.

„Þetta er auðvitað langsterkasta deildin í heiminum í dag eftir að bandaríska er dottin upp fyrir. Þýsku toppliðin eru auðvitað best en deildin þar ekki jafnspennandi og í Svíþjóð," segir Þóra.

Liðið stóð sig vel í Meistaradeild Evrópu í vetur en féll úr leik í átta liða úrslitum gegn Frankfurt. Liðið vann 1-0 sigur í heimaleiknum en tapaði 2-0 í síðari leiknum ytra. Þýska liðið fór alla leið í úrslit þar sem liðið tapaði gegn Lyon.

„Sigurinn heima var frábær en svo áttum við hræðilegan leik í Frankfurt. Þrátt fyrir það vorum við nálægt því að komast áfram sem sýnir kannski okkar stöðu í Evrópu. Við erum topplið í Evrópu," segir Þóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×