Hressir krakkar í 7 EJ í Álfhólsskóla í Kópavogi komu með gömul hjól og gáfu í söfnun Barnaheilla og Wow Cyclothon fyrir hádegi í dag. Söfnunin stendur til 11. júní næstkomandi. Hjólunum verður safnað á endurvinnslustöðvum Gámaþjónustunnar og Hringrásar um landið allt og hjá Sorpu á höfuðborgarsvæðinu. Hjólin eru ætluð börnum sem ekki hafa kost á því að kaupa sér reiðhjól. Á leiðinni að afhendingarstað fundu börnin í Álfhólsskóla eitt hjól. Það var svo gamalt og úrelt að börnin drógu þá ályktun að enginn ætti það og kipptu þau hjólinu því með.
Hjólin sem safnast verða gerð upp af sjálfboðaliðum undir styrkri stjórn sérfræðinga í reiðhjólaviðgerðum og afhent af mæðrastyrksnefndum að lokinni hjólreiðakeppninni, WOW Cyclothon, 22. júní næstkomandi. Þann 16. júní geta allir sem vilja lagt hönd á plóg við að koma hjólunum í stand áður en þau fara í dreifingu. Þá koma saman sérfræðingar í reiðhjólaviðgerðum, liðin sem taka þátt í WOW Cyclothon, sjálfboðaliðar og fleira fólk sem vill leggja söfnuninni lið.
Krakkar í Álfhólsskóla komu færandi hendi
Jón Hákon Halldórsson skrifar
