Handbolti

Karen: Búnar að bíða lengi eftir þessum leik

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Karen Knútsdóttir.
Karen Knútsdóttir. mynd/pjetur
Stelpurnar okkar spila gríðarlega mikilvægan leik gegn Spáni í Vodafone-höllinni í kvöld. Sá leikur verður að vinnast ef stelpurnar ætla sér að komast á EM.

"Ég held við séum tilbúnar í slaginn. Við erum búnar að bíða lengi eftir þessum leik og þetta eru bara tveir úrslitaleikir fram undan," sagði miðjumaðurinn Karen Knútsdóttir sem stýrir leik íslenska liðsins.

"Við vorum mjög lélegar í fyrri leiknum gegn Spáni en við sýndum á HM í Brasilíu að við getum unnið öll lið á góðum degi. Auðvitað þarf margt að ganga upp. Við verðum að hafa trú á okkur og þá getum við gert ýmislegt.

"Spænska liðið var heldur ekki gott síðast og mér fannst sá leikur bara lélegur af beggja hálfu. Það vantaði auðvitað aðeins í okkar lið en nú eru allir í góðu standi."

Stelpurnar sýndu á HM að þær kunna að sparka frá sér þegar þær eru komnar með bakið upp við vegginn.

"Þá kannski kemur geðveikin fram hjá okkur. Við vitum vel hvað er undir en þetta er eitt af bestu fimm liðum heims. Við verðum að spila agaðan sóknarleik og klára sóknirnar. Sama þó við skorum ekki. Við megum ekki gefa þeim boltann. Þá keyra þær yfir okkur."

Leikurinn í kvöld hefst klukkan 19.30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×