Íslenski boltinn

Minningarleikur um Steingrím á Hásteinsvelli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sérstakur minningarleikur um Steingrím Jóhannesson verður á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum föstudaginn 1. júní næstkomandi. Steingrímur, sem er einn markahæsti leikmaður Íslandsmótsins frá upphafi, féll frá í mars, 38 ára gamall, eftir harða baráttu við krabbamein.

Steingrímur lék alls 221 leik í efstu deild og skoraði í þeim 81 mark. Eyjamaðurinn lék með ÍBV, Fylki, Selfossi og KFS á glæsilegum ferli. Steingrímur var ekki bara markahrókur mikill heldur var hann einnig alla tíð til mikillar fyrirmyndar á velli. Steingrímur lét eftir sig eiginkonu og tvö börn.

Liðin í minningarleiknum verða skipuð gömlum leikmönnum ÍBV og Fylkis og leiktíminn verður tvisvar sinnum 30 mínútur. Það mun kosta þúsund krónur inn fyrir fullorðna en frítt er fyrir börn.

Það verður einnig tekið á móti frjálsum framlögum. Þeir sem vilja minnast Steingríms og styrkja fjölskyldu hans á þessum erfiðu tímum er bent á reikninginn: 525 14 615136 kennitala: 1705765439.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×