Sport

Verður körfuboltahúsið í London flutt til Ríó fyrir ÓL 2016?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Körfuboltahöllin.
Körfuboltahöllin. Mynd/Nordic Photos/Getty
Nýja glæsilega íþróttahöllin sem mun hýsa körfubolta- og handboltakeppni Ólympíuleikanna í London í sumar gæti stoppað stutt við í London. Það kemur nefnilega til greina að flytja húsið suður til Brasilíu fyrir Ólympíuleikana í Río 2016.

Körfuboltakeppnin verður öll í húsinu sem er kallað Basketball Arena en undanúrslitaleikir og leikir um sæti í handboltanum fara einnig fram í þessari höll sem tekur tólf þúsund manns í sæti. Það verður einnig keppt í húsinu á Ólympíuleikum fatlaðra.

Basketball Arena er í Ólymíuþorpinu í London og lauk byggingu hennar í júní 2011. Það tók fimmtán mánuði að byggja húsið. Húsið er það nálægt Ólympíuleikvanginum að það verður notað sem skjól fyrir íþróttafólkið í tengslum við Opnunar- og lokahátíð leikana.

Skipuleggjendur leikjanna tveggja, í London og Río, eru nú byrjaðir að ræða saman um möguleikann á því að flytja höllina suður til Brasilíu. Eins skrýtið og það hljómar þá gæti því verið spilaður körfubolti í sama húsi á ÓL í London 2012 og ÓL í Río 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×