Sport

Taka Einar og Friðrik við Njarðvíkurliðinu?

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Friðrik Ragnarsson
Friðrik Ragnarsson Mynd/Valli

Svo gæti farið að þeir Einar Árni Jóhannsson og Friðrik Ragnarsson taki að sér þjálfun karlaliðs Njarðvíkur í körfuknattleik. Sigurður Ingimundarson hætti störfum sem þjálfari liðsins í gær eftir afleitt gengi liðsins að undanförnu.

Jón Guðlaugsson, formaður körfuknattleiksdeildar UMFN segir í samtali við Víkurfréttir að rætt hafi verið við þá Einar og Friðrik. Ekki er ljóst hvort þeir taki þjálfarastöðuna að sér í sameiningu en sú hugmynd virðist vera uppi á borðinu.

Einar Árni var þjálfari Njarðvíkinga í þrjú tímabil, 2004-2007 og undir hans stjórn varð liðið Íslandsmeistari vorið 2006 eftir úrslitaeinvígi gegn Skallagrími. Friðrik Ragnarsson var þjálfari Njarðvíkinga 2000-2004 og hann náði tveimur Íslandsmeistaratitlum á þeim tíma, 2001 og 2002. Teitur Örlygsson var með Friðriki í þjálfarateyminu 2000-2001.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×