Hafsteinn hefur veg og vanda af verkefninu Jólavættir í miðborginni í samvinnu við Höfuðborgarstofu. Verkefnið gengur út á að kynna jólavættirnar, Grýlu, Leppalúða og gömlu jólasveinana, fyrir borgarbúum með því að varpa þeim á húsveggi víðs vegar um bæinn. Þegar Fréttablaðið náði tali af Hafsteini var hönnuðurinn á fullu að setja upp myndvarpa fyrir frumsýninguna á sunnudaginn.
„Hugmyndin er að upphefja sagnahefðina og búa til skreytingar sem eru skemmtilegar fyrir börn jafnt sem fullorðna. Það var kominn tími á að breyta til í jólaskreytingum miðborgarinnar en það er einfaldleikinn sem skiptir máli. Hver man til dæmis ekki eftir jólasveinunum í Rammagerðinni sem ávallt hefur verið beðið eftir með mikilli eftirvæntingu? Mig langaði að búa til þannig stemmningu."
Gunnar Karlsson teiknari gerði fígúrurnar en hann teiknaði til dæmis fyrir íslensku teiknimyndina Þór.
„Allar persónurnar eru í þrívídd svo þær hreyfast líka. Til dæmis trónir Grýla yfir Bankastrætinu og minnir fólk á að fara hægt um gleðinnar dyr yfir hátíðirnar."

Nánari upplýsingar um verkefnið og Jólakortið 2011 er að finna á vef Höfuðborgarstofu. -áp