Skoðun

Átta milljarðar til hækkunar lífeyris og bóta í velferðarkerfinu

Stjórnvöld hafa ákveðið að verja rúmum átta milljörðum króna á þessu ári til að hækka bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur. Þetta er í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að lífeyrisþegar og atvinnuleitendur skuli njóta hliðstæðra kjarabóta og samið hefur verið um á almennum vinnumarkaði.

Fyrir átta milljarða króna er unnt að bæta umtalsvert kjör þeirra sem minnst hafa og draga úr fátækt. Það er markmiðið með þessum aðgerðum stjórnvalda þar sem hækkanir verða mestar hjá þeim tekjulægstu í hópi lífeyris- og bótaþega.

12.000 króna hækkun atvinnuleysisbóta og lágmarkstryggingar lífeyrisþegaGrunnlífeyrir, aldurstengd örorkuuppbót, tekjutrygging og heimilisuppbót hækka um 8,1% frá 1. júní 2011. Með þessu móti hækkar lágmarkstrygging þeirra sem hafa engar tekjur aðrar en bætur almannatrygginga um 12.000 krónur. Eftir hækkunina eru lífeyrisþega sem býr einn tryggðar 196.000 krónur á mánuði en sá sem býr með öðrum fær 169.000 krónur á mánuði. Grunnatvinnuleysisbætur hækka einnig um 12.000 krónur í tæpar 162.000 krónur á mánuði.

Auk framantalinna bótaflokka hækkar endurhæfingarlífeyrir, barnalífeyrir, uppbót á lífeyri og sérstök uppbót til framfærslu, vasapeningar og örorkustyrkur um 8,1%. Sama máli gegnir um mæðra- og feðralaun, umönnunargreiðslur, maka- og umönnunarbætur, barnalífeyri vegna menntunar, dánarbætur, foreldragreiðslur, fæðingarstyrk og ættleiðingarstyrk.

50.000 króna eingreiðsla í júní og uppbót í desemberLífeyrisþegar sem fengu greiddan lífeyri einhvern tíma á tímabilinu 1. mars til 31. maí 2011 fá 50.000 króna eingreiðslu í júní. Sama gildir um atvinnuleitendur sem eru að fullu tryggðir í atvinnuleysisbótakerfinu og hafa staðfest atvinnuleit á tímabilinu 20. febrúar til 19. maí síðastliðinn. Hafi atvinnuleitendur ekki fullan bótarétt er eingreiðslan reiknuð í hlutfalli við það en verður þó aldrei lægri en 12.500 krónur. Eingreiðslurnar svara til eingreiðslu til launafólks samkvæmt kjarasamningum.

Desemberuppbót elli- og örorkulífeyrisþega hækkar úr 30% í 42% af tekjutryggingu og heimilisuppbót. Hækkunin nemur rúmum 15.000 krónum og verður desemberuppbótin um 52.500 krónur hjá lífeyrisþegum.

Atvinnuleitendum var í fyrsta sinn greidd desemberuppbót á liðnu ári. Hún hefur nú verið bundin í lög og verður í desember 2011 rúmar 63.000 krónur að meðtalinni 15.000 króna eingreiðslu.

Orlofsuppbót lífeyrisþegaOrlofsuppbót til elli- og örorkulífeyrisþega hækkar úr 20% í 28,3% af tekjutryggingu og heimilisuppbót eða sem svarar 10.000 krónum og verður rúmar 34.000 krónur. Hjá þeim sem eru ekki með heimilisuppbót hækkar orlofsuppbótin að hámarki um 7.700 krónur.

Bensínstyrkur hækkar og skerðir ekki lágmarkstryggingu lífeyrisþegaUppbót vegna reksturs á bíl (bensínstyrkur) hækkar um 8,1%. Til þessa hefur uppbótin dregist frá þeirri upphæð sem lögð er til grundvallar lágmarkstryggingu lífeyrisþega. Með breytingunum nú hættir hún að skerða lágmarkstrygginguna líkt og gildir um aðrar uppbætur sem greiddar eru fólki til að mæta kostnaði, til dæmis vegna sjúkra- og lyfjakostnaðar.

Staða hinna tekjulægstu varinHaustið 2008 setti forveri minn, Jóhanna Sigurðardóttir þáverandi félagsmálaráðherra, reglugerð sem tryggði lágmarkstryggingu á lífeyrisgreiðslur sem var þá 150.000 krónur á mánuði hjá einstaklingum. Með þessu varð grundvallarbreyting á stöðu tekjulægstu lífeyrisþeganna í samanburði við lægstu laun á vinnumarkaði og var lágmarkslífeyrir nú orðinn hærri í hlutfalli af lægstu launum en hann hafði verið í þrettán ár.

Stjórnvöld hafa síðustu misseri lagt sérstaka áherslu á að verja stöðu þeirra tekjulægstu í hópi lífeyrisþega. Lágmarkstrygging lífeyris var hækkuð um 20% í janúar 2009 sem fór þá í 180.000 krónur, aftur varð hækkun um 2,3% 1. janúar 2010 og með hækkununum nú fer hún í rúmar 196.000 krónur á mánuði hjá einstaklingum sem búa einir.

Á myndinni sést hvernig lágmarkstrygging einhleypra lífeyrisþega hefur þróast sem hlutfall af lægstu launum síðastliðin tíu ár.

Þáttaskil urðu í ársbyrjun 2009 þegar hlutfall þessara greiðslna fór í 115% miðað við lægstu laun og hafði þá aldrei verið hærra. Með þeim breytingum sem nú eru gerðar á lífeyrisgreiðslum helst hlutfall þeirra enn vel yfir lágmarkslaunum á almennum vinnumarkaði.

Elli- og örorkulífeyrisþegar eru stór hópur landsmanna, rúmlega 40.000 manns. Aðstæður innan hópsins eru mismunandi. Margir eru ágætlega settir en hluti hópsins stendur verr og á erfitt með að ná endum saman. Stefna stjórnvalda hefur verið sú að styðja sérstaklega við þá sem lökust hafa kjörin og verður haldið áfram á þeirri braut, enda brýnt á þessum tímum þegar minna er til skiptanna en áður og mikilvægt að auka jöfnuð í samfélaginu.




Skoðun

Sjá meira


×