Viðskipti innlent

Forstjórinn sem vildi ekki verða prófessor

Nýráðinn forstjóri Páll Harðarson hefur unnið í Kauphöllinni í níu ár. Hann tók við forstjórastarfinu fyrr í mánuðinum. Páll býst við að fjöldi fyrirtækja verði skráður á hlutabréfamarkað eftir skell í kjölfar efnahagshrunsins. Fréttablaðið/GVA
Nýráðinn forstjóri Páll Harðarson hefur unnið í Kauphöllinni í níu ár. Hann tók við forstjórastarfinu fyrr í mánuðinum. Páll býst við að fjöldi fyrirtækja verði skráður á hlutabréfamarkað eftir skell í kjölfar efnahagshrunsins. Fréttablaðið/GVA
Því er ekki að neita að hún er skrýtin tilfinningin sem bærist manni í brjósti. Ég var búinn að starfa mjög náið með Þórði í langan tíma og mat hann mjög mikils," segir Páll Harðarson, sem á dögunum tók við forstjórastarfi í Kauphöllinni eftir fráfall Þórðar Friðjónssonar sem hafði gegnt starfinu í níu ár.

Þórður hafði lengi beitt sér bæði í máli og riti fyrir endurreisn efnahagslífsins eftir hrunið 2008. Páll segir glitta í að uppskeran skili sér bráðlega.

Forsvarsmenn nokkurra fyrirtækja og fulltrúar þeirra hafa fundað með forsvarsmönnum Kauphallarinnar síðustu tvo mánuði og er útlit fyrir að tvö fyrirtæki verði skráð á hlutabréfamarkað hér fyrri hluta árs og fleiri í haust. Síðast var fyrirtækið skráð á markað hér árið 2007.

„Miðað við þann fjölda forsvarsmanna fyrirtækja sem hafa fundað með okkur sýnist mér margt benda til að í ár verði mesta aukning í skráningum á markað frá 1999," segir Páll og bendir á að í sumum tilvikum séu fyrirtækin búin að innleiða ferla fyrir skráningu, í öðrum sé verið að móta þá.

Uppsveifla eftir hrunPáll rifjar upp að á tíunda áratug síðustu aldar og fram að því er netbólan reis sem hæst rétt fyrir aldamótin hafi verið mikill uppgangur á hlutabréfamarkaði. Skráðum félögum fjölgaði þá úr engum árið 1990 í 75 þegar mest lét níu árum síðar. Nokkur fyrirtækjanna voru umfangsmikil en fleiri lítil. Í kjölfarið tóku við samrunar og afskráningar og fækkaði félögum á markaði. Bankahrunið hafði mikil áhrif á Kauphöllina og eru nú ellefu fyrirtæki skráð á markað.

Páll telur aðstæður svipaðar nú og í árdaga hlutabréfamarkaðar fyrir tuttugu árum.

„Það er mikil gróska hér. Ég held að þegar fram líða stundir gætum við verið með sambærilegan fjölda. Það kæmi mér verulega á óvart ef skráningum fjölgar ekki," segir hann og nefnir að Marel og Össur, stærstu fyrirtækin í Kauphöllinni, hafi orðið risar eftir skráningu; til dæmis hefur Marel 328-faldast á tuttugu árum.

Bremsa á viðreisninniOg aftur að Þórði Friðjónssyni, sem virtist seint þreytast á því að boða viðsnúning á markaði. En ský dró síðar frá sólu en búist var við.

„Skömmu eftir hrunið vorum við með ákveðnar væntingar um endurreisn bankanna og hvernig það ferli gæti gengið fyrir sig. Síðan þá hefur allt tekið töluverðan tíma og ýmislegt flækt þau áform. Gengistryggðu lánin og fleira settu bremsu á alla endurreisnina. Síðan finnst okkur sem menn hafi farið sér full rólega í því að selja félögin sem bankarnir hafa tekið yfir. Mér finnst það reyndar enn of ríkjandi hugsunarháttur að fyrst þurfi að selja félögin fagfjárfestum sem setji þau á markað. Það eru engin rök fyrir því í mörgum tilvikum, félögin eru algjörlega tilbúin til að fara á markað. Svo skil ég ekki rökin fyrir því að halda almennum fjárfestum fyrir utan tækifærið til að taka þátt í uppsveiflunni. Ég held að menn ofmeti þetta millistykki," segir Páll.

Höft og Icesave hindrunFleira hefur orðið til þess að hægja á endurreisninni. Gjaldeyrishöft sem innleidd voru eftir hrun hafa sett strik í reikninginn og Icesave-málið tekið sinn toll. Páll vill afnema gjaldeyrishöft eins fljótt og auðið er. Hann telur ólíklegt að það muni hafa gengishrun í för með sér eins og sumir spá.

„Ég er þeirrar skoðunar að gjaldeyrishöftin séu pólitískt viðfangsefni frekar en efnahagslegt. Út frá flestum efnahagslegum mælikvörðum myndi ég halda að það mætti afnema þau tiltölulega fljótt. Ef verið er að bíða eftir hinu fullkomna augnabliki til að afnema höftin þá held ég að það komi aldrei. Það verður alltaf hægt að finna tylliástæðu til að halda þeim. Á sama tíma er mjög hæft fólk að læra að lifa með þeim. Gríðarlegum hæfileikum er verið að sóa út af gjaldeyrishöftunum. Þá er ótalið viðskiptasiðferði og aðrir þættir sem þau hafa áhrif á," segir Páll.

Icesave-málið er af svipuðum toga.

„Ég er eindregið þeirrar skoðunar að þessi frestur á málinu hafi gagnast okkur – að það hafi verið rétt að samþykkja ekki fyrri samninga. Þetta er stórt mál en í augnablikinu finnst mér aðrir þættir mikilvægari," segir hann og setur fyrirvara við gengisáhættuna af Icesave-samningnum. Í fyrsta lagi finnst mér ólíklegt að gengið sígi; í öðru lagi að ef gengið sígur mun verðmæti útflutnings í krónum talið aukast og þar með getan til að standa undir skuldbindingunni. Mér hefur fundist Icesave-málið hafa verið afsökun fyrir aðgerðaleysi," segir Páll og leggur áherslu á að sér finnist sem margir Íslendingar hafi einblínt um of á hluti sem þeir hafi engin áhrif á.

„Mér finnst við í raun hafa sofið á verðinum með innra skipulag hagkerfisins. Það ræður á endanum alltaf því hvernig gengur og sker úr um hvort við njótum trausts eða ekki," segir hann.

Halda ótrauð áframPáll segir að þótt Þórður hafi vitað af þeirri bylgju sem hann bjóst við handan við hornið þyki sér sárt að hann hafi ekki lifað til að sjá hana.

„Þórður var búinn að búa svo um hnútana hér eins og allir góðir og afgerandi leiðtogar að við höldum bara áfram. Ég er með rosalega gott teymi á bak við mig, held að við séum tilbúin í þetta verkefni og höldum ótrauð áfram. En tilfinningarnar eru vissulega mjög blendnar," segir Páll Harðarson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×