Fótbolti

Þóra og Sara á toppnum fyrir lokaumferðina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir á möguleika á því að verða meistari á fyrsta ári með Malmö.
Sara Björk Gunnarsdóttir á möguleika á því að verða meistari á fyrsta ári með Malmö. Mynd/Stefán
LdB FC Malmö, lið þeirra Þóru B. Helgadóttur og Söru Bjarkar Gunnarsdóttur, vann mikilvægan sigur í sænsku kvennadeildinni í kvöld. LdB FC Malmö vann þá 1-0 útisigur á Hammarby og náði fyrir vikið eins stigs forskoti á toppnum fyrir lokaumferðina sem fram fer um næstu helgi.

Þóra og Sara Björk spiluðu allan leikinn með Malmö-liðinu, Þóra að sjálfsögðu í markinu en Sara í fremstu víglínu. Það var miðvörðurinn Emma Wilhelmsson sem skoraði sigurmarkið strax á 12. mínútu leiksins.

LdB FC Malmö getur tryggt sér sænska meistaratitilinn annað árið í röð með sigri á Eddu Garðarsdóttir og Ólínu Guðbjörgu Viðarsdóttur í lokaumferðinni en Malmö fær þá Örebro í heimsókn.

Kopparbergs/ Göteborg FC er stigi á eftir Malmö en mætir Tyresö FF á útivelli í lokaleiknum. Tyresö-liðið á líka möguleika á titlinum en liðið er þremur stigum á eftir Malmö en með betri markatölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×