Fótbolti

Margrét Lára skoraði hjá Þóru en Malmö vann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir.
Margrét Lára Viðarsdóttir. Mynd/Daníel
LdB FC Malmö og Tyresö FF eru jöfn að stigum í toppsæti sænsku kvennadeildarinnar eftir leiki helgarinnar. Tyresö situr í toppsætinu á betri markatölu en liðið vann 2-0 útisigur á Piteå í gær.

LdB FC Malmö vann 2-1 heimasigur á Elísabetu Gunnarsdóttur og stelpunum hennar í Kristianstad í dag. Margrét Lára Viðarsdóttir kom Kristianstad yfir eftir aðeins rúmar fjórar mínútur en Malmö svaraði með tveimur mörkum fyrir hálfleik og þannig urðu lokatölur leiksins.

Þóra Björg Helgadóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir spiluðu allan leikinn með LdB FC Malmö en Sif Atladóttir, Erla Steina Arnardóttir og Guðný Björk Óðinsdóttir spiluðu allan tímann hjá Kristianstads DFF. Margrét Lára Viðarsdóttir fór útaf á 73. mínútu en fram að því voru sex íslenskir leikmenn inn á vellinum.

Guðbjörg Gunnarsdóttir, Katrín Jónsdóttir og Dóra María Lárusdóttir léku allan tímann með Djurgården sem tapaði 1-2 á heimavelli á móti Linköping.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×