Handbolti

Hanna Guðrún: Trúi þessu varla

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Ole Nielsen
Landsliðskonan Hanna Guðrún Stefánsdóttir segist varla trúa því að Stjarnan verði ekki með á næsta tímabili. Hún heyrði tíðindin á æfingu síðdegis í dag.

„Þetta kom mér bara mjög á óvart. Þetta er bara sjokk. Bæði fyrir íslenskan handbolta og mig sem leikmann enda mikið framundan hjá landsliðinu," sagði Hanna í samtali við Vísi í kvöld.

Hanna Guðrún segist ekki byrjuð að velta framhaldinu fyrir sér.

„Nei, þetta eru svo ný tíðindi. Við eigum eftir að hittast, leikmenn og þjálfari, og ræða málin saman. Taka stöðuna og jafna okkur á þessu."

Hanna hefur lengst af leikið með Haukum í Hafnarfirði en skipti yfir í Stjörnuna fyrir síðastliðið tímabil.

„Svo ég tali út frá mér fór ég úr einu stórveldi yfir í annað stórveldi. Maður bjóst aldrei við því að þetta myndi gerast og hvað þá á svona stuttum tíma. Stjarnan í Garðabæ verður bara ekki með!"

Það liggur beinast við að Hanna fari aftur heim í Hafnarfjörðinn en hún vann fjölmarga titla með félaginu á tíma sínum þar.

„Það er auðvitað alltaf gott að fara heim en ég er ekkert að hugsa um það núna. Maður er bara að melta þetta. Þetta er að síast inn hjá manni en samt ekki. Maður trúir þessu varla."

Hanna segir hópinn munu hittast á morgun og ræða málin. Hún útilokar ekki að hópurinn spili saman í deildinni á næsta ári.

„Nei, við viljum auðvitað ekki útiloka neitt. En það vantar auðvitað í hópinn. Hann er ekki stór. Það er búið að fara mikið úr hópnum fyrir þetta tímabil," segir Hanna og bætir við:

„Við vorum með rosalega flott lið síðasta vetur og ungir leikmenn fóru í lán því við vorum svo margar. Þeir leikmenn eru í öðrum liðum núna. Það vantar unga leikmenn að fylla í skörðin. Allir markverðirnir eru farnir, þá er ekki mikið eftir," sagði Hanna




Fleiri fréttir

Sjá meira


×