Fótbolti

Sara Björk með þrennu í annað skiptið á tímabilinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Sara Björk Gunnarsdóttir í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Valli
Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði þrjú mörk í 5-0 sigri Malmö á Jitex í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Þetta er í annað skiptið á tímabilinu sem hún afrekar að skora þrennu.

Mörkin þrjú skoraði hún á 32., 45. og 90. mínútu en sigur Malmö var öruggur eins og tölurnar gefa til kynna.

Sigurinn fleytti Malmö á topp deildarinnar þar sem að Umeå gerði jafntefli við Piteå á sama tíma í kvöld, 2-2. Malmö og Umeå eru jöfn á toppnum með 31 stig eftir fjórtán leiki en Malmö með betra markahlutfall.

Örebro vann 2-0 sigur á Linköping. Edda Garðarsdóttir og Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir léku allan leikinn fyrir Örebro sem er í fimmta sæti deidlarinnar með 23 stig. María Björg Ágústsdóttir, markvörður, var einnig í byrjunarliði Örebro en meiddist snemma í leiknum og varð af fara af velli.

Edda leysti hana af í markinu og kláraði leikinn með því að halda hreinu.

Þá tapaði Kristianstad, lið Elísabetar Gunnarsdóttur, fyrir Hammarby á útivelli, 1-0. Margrét Lára Viðarsdóttir, Guðný Björk Óðinsdóttir og Sif Atladóttir léku allan leikinn fyrir Kristianstad en Erla Steina Arnardóttir kom inn á sem varamaður á 72. mínútu.

Tapið er óvænt en Kristianstad er í sjötta sæti deildarinnar með 21 stig en Hammarby í fallsæti, nú með sjö stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×