Handbolti

Gústaf Adolf: Vorum grátlega nálægt því

Hlynur Valsson skrifar
Gústaf Adolf Björnsson, þjálfari Stjörnunnar.
Gústaf Adolf Björnsson, þjálfari Stjörnunnar.
Gústaf Adolf Björnsson þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar í handbolta var niðurlútur eftir æsispennandi leik gegn Fram í Mýrinni í Garðabæ í dag þar sem Fram fór með sigur af hólmi 21-22.

„Ég vil bara óska Fram innilega til hamingju með að hafa unnið þetta einvígi 2-0, en við reyndum svo sannarlega allt sem við gátum til að komast í oddaleikinn í Framhúsinu á mánudaginn og vorum grátlega nálægt því," sagði Gústaf svekktur.

Viðureignir þessara liða hafa verið mjög jafnar í vetur og í báðum leikjunum í deildinni unnu Framarar með eins marks mun.

„Við erum búin að spila við Fram fjórum sinnum í vetur og skíttöpuðum auðvitað síðasta fimmtudag. Í hinum leikjunum hefur bara munað einu marki og ekkert sanngirni í því að sigurinn hafi endað hjá Fram í þeim öllum"

Gústaf var ánægður með leik síns liðs í dag. „Flottur karakter í liðinu og ekkert upp á það að klaga, varnarleikurinn var flottur og markvarslan fín. Við fengum fín hraðaupphlaup en klikkuðum of mikið þar sérstaklega í fyrri hálfleik. Annars bara flottur leikur sem bauð upp á spennu og hraða og auðvitað einhver mistök inn á milli en það fylgir alltaf þegar mikið er undir," sagði Gústaf Adolf í samtali við Vísi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×