Innlent

Gripin með 26 kíló af smygluðu glingri

jss@frettabladid.is skrifar
Vel hafði verið búið um glingrið, eins og myndin sýnir, áður en það var kirfilega falið í frambrettum bílsins.
Vel hafði verið búið um glingrið, eins og myndin sýnir, áður en það var kirfilega falið í frambrettum bílsins.

Fjórir Rúmenar, tveir karlar og tvær konur, voru látin greiða rúmlega 50 þúsund krónur í sekt eftir að þau höfðu verið gripin með um 26 kíló af smygluðum skartgripum í fyrradag. Tollgæslan á Seyðisfirði hafði afskipti af fjórmenningunum sem komu með Norrænu til landsins frá Danmörku. Góssið hafði verið vandlega falið í frambrettum tíu ára gamallar Benz-bifreiðar, að sögn Árna Elíssonar, yfirmanns tollgæslunnar á Seyðisfirði.

Hann sagði að þar hefði einkum verið að finna hringa og hálsmen, sem virtust vera óekta glingur. Smyglvarningurinn var gerður upptækur.

„Fólkið hefur líklega ætlað að koma þessu í verð hér,“ sagði Árni. „Þegar lyktir málsins urðu þessar hafði það hins vegar enga löngun til að dvelja hér lengur og keypti sér farmiða með Norrænu úr landi með það sama. Það verður þó að bíða hér í viku áður en það kemst burt með næstu ferð.“

Árni sagði að vissulega væri sektin sem fólkið hefði fengið ekki há. En höfuðrefsingin hefði í raun verið að missa vöruna.

„Það er í raun og veru það sem kippir fótunum undan fólki,“ sagði hann.“ Svo endar þetta náttúrulega á uppboði og ríkið fær væntanlega einhverja peninga að auki þar. Síðast en ekki síst fer þetta ekki á almennan markað þar sem menn eru í lögmætum viðskiptum. Venjan hjá þessu fólki er að reyna að telja viðskiptavinum trú um að þetta séu verðmætir skartgripir og reyna að selja þá á sem hæstu verði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×