Þúsundir eru saman komnar í miðbæ Reykjavíkur í tilefni af gleðigöngu Hinsegin daga sem fram fór í dag. Lögreglumaður sem fréttastofa ræddi við sagðist ekki þora að fullyrða nákvæmlega um fjöldann en sagði að minnsta kosti óhætt að fullyrða að fjöldinn væri jafnmikill og í fyrra.
Göngunni sjálfri er lokið en eftir hana tók við skemmtidagskrá þar sem meðal annars Páll Óskar Hjálmtýsson skemmtir gestum. Jón Gnarr borgarstjóri var á fyrsta vagni göngunnar sem fór niður Laugaveginn í dag. Þar var hann í gervi Salbjargar, en það er sérstök persóna sem Jón bjó til í tilefni af Hinsegin dögum. Hann kom fram í sama gervi á opnunarhátíð Hinsegin daga á fimmtudag.
