Golf

Ólafía Þórunn: Sautján ára og búin að vera efst allt mótið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR og Sigmundur Einar Másson úr GKG eru efst fyrir lokadaginn.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR og Sigmundur Einar Másson úr GKG eru efst fyrir lokadaginn. Mynd/Stefán
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR hefur staðið sig frábærlega á Íslandsmótinu í höggleik á Kiðjabergsvelli og er með eins högg forskot fyrir lokahringinn. Ólafía sýndi mikinn styrk í lokin á þriðja hringnum í dag þegar hún lék þrjár síðustu holurnar á tveimur höggum undir pari og náði aftur forustunni í mótinu.

Ólafía Þórunn er á samtals fimmtán höggum yfir pari og hefur haldið forystunni alla þrjá hringina en hún var með þriggja högga forskot eftir bæði 18 og 36 holur. Tinna er á 16 höggum yfir pari og Signý á 18 höggum yfir pari. Það stefnir því í spennandi lokahring hjá stúlkunum á morgun.

Ólafía Þórunn sagðist ekki vera nægilega ánægð með hringinn í viðtali á heimasíðu Golfklúbbs Kiðjabergs í dag en hún talaði um að hún hafi ekki verið að leika sitt besta golf.

„En ég endaði hringinn vel og er ánægð með það. Það er ekkert annað í stöðunni en að reyna að vinna á morgun. Ég veit að ég get gert betur en í dag og ætla mér það. Allar aðstæður voru frábærar í dag, völlurinn og veðrið eins og best verður á kosið," sagði Ólafía Þórunn eftir hringinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×