Innlent

Alvarlega brenndur eftir slys

Sprenging varð í járnblendiverksmiðjunni.
Sprenging varð í járnblendiverksmiðjunni.

Einn maður er alvarlega slasaður eftir sprengingu í Járnblendiverksmiðjunni Elkem á Grundartanga í gærkvöldi. Maðurinn var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann í Fossvogi. Samkvæmt vakthafandi lækni á gjörgæsludeildinni liggur maðurinn þar alvarlega slasaður og þungt haldinn.

Tilkynnt var um slysið um kvöldmatarleytið í gær og fékk þyrlan beiðni um hjálp um hálfátta leytið. Lent var með manninn í Fossvogi rétt fyrir klukkan níu, eftir að honum hafði verið veitt aðhlynning á slysstað.

Að sögn Einars Þorsteinssonar, forstjóra verksmiðjunnar, er ekki vitað nákvæmlega hvað olli slysinu eða hver atburðarásin var, annað en að einhvers konar bruni hafi orðið í ofnhúsi á annarri hæð, þar sem maðurinn var við vinnu. Bruninn var mikill en ekki er víst að um sprengingu hafi verið að ræða, að sögn Einars. Þegar Fréttablaðið náði tali af honum í gærkvöldi sagði hann unnið að því að ná stjórn á aðstæðum og tryggja að ekki færi á enn verri veg. Ekki var hægt að komast inn í húsið sökum eldsins fyrr en seint í gærkvöldi. Þá var unnið í því að komast að orsökum slyssins. - þeb








Fleiri fréttir

Sjá meira


×