Handbolti

Sigfús Páll Sigfússon aftur í Fram

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Sigfús Páll.
Sigfús Páll. Fréttablaðið/Daníel
Sigfús Páll Sigfússon er genginn í raðir Fram á nýjan leik. Hann kemur til liðsins frá Val. Hann gerði tveggja ára samning við Fram en hann var samningslaus hjá Val.

Fram sendi frá sér fréttatilkynningu vegna þessa í dag.

„ Sigfús þarf ekki að kynna fyrir Frömurum. Leikmaðurinn byrjaði ungur að árum að vekja athygli í Safamýrinni og Einar nokkur Jónsson, aðalþjálfari m.fl. kvenna og aðstoðarþjálfari m.fl. karla, tók drenginn snemma á séræfingar. Sigfús lék sinn fyrsta leik fyrir meistaraflokk Fram undir stjórn Heimis Ríkharðssonar leiktíðina 2003-2004, þá aðeins 17 ára gamall."

"Haustið 2005 tók Guðmundur Þórður Guðmundsson við ungu liði Fram og lagði hann mikið traust á herðar Sigfúsar sem varð aðal leikstjórnandi liðsins tímabilið 2005-2006. Sigfús varð Íslandsmeistari með Fram á sömu leiktíð og var valinn bæði efnilegasti og besti sóknarmaður deildarinnar á árlegu lokahófi HSÍ. Sem leikmaður Fram var Sigfús valinn í A-landsliðið og hefur hann leikið tvo landsleiki fyrir Íslands hönd."

"Undanfarin ár hefur Sigfús verið meðal fremstu leikstjórnenda landsins. Sigfús er gríðarlega útsjónarsamur leikmaður og fáir halda jafn góðu „flæði" í sóknarleik og Sigfús. Sigfús hefur fiskað hvað flest vítaköst og brottvísanir í deildinni undanfarin ár."

"Handknattleiksdeild Fram býður Sigfús hjartanlega velkominn heim og hlakkar til að sjá til kappans á fjölum Safamýrarinnar í blárri treyju á komandi vetri."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×