Innlent

Gott svigrúm til samkeppni

Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express.
Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express.

Iceland Express ætlar að hefja flug til Orlando í Flórída í október. Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express, segir leiðina vera mjög vinsæla meðal Íslendinga og gott svigrúm sé fyrir samkeppni á markaðnum.

„Fólk er spennt fyrir því að fá samkeppni á þessari leið,“ segir Matthías. „Þetta er stór markaður og við verðum mjög líklega mun ódýrari heldur en samkeppnisaðilinn.“

Matthías segir einnig að flug Iceland Express til Kanada muni halda áfram og það sé mikill áhugi hér á landi fyrir Manitoba. „Þetta er mjög góður framtíðarstaður. Það er mikið af Vestur Íslendingum sem búa þar og það eru engin flug frá Manitoba til Evrópu.“

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Flugleiða, segir að öll samkeppni sé af hinu góða.

„Þetta er frjáls markaður og við fögnum samkeppni hvar og hvenær sem er.“

Lausleg athugun á verðsamanburði flugfélaganna tveggja leiddi í ljós að Icelandair rukkar nú rúmlega 30 þúsund krónum meira en Iceland Express fyrir sambærileg flug. Guðjón segir ástæðuna vera að ódýrustu sæti Icelandair séu nú þegar bókuð. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×