Innlent

Prófessor við HÍ fær Gad Rausings verðlaunin

Vésteinn Ólason.
Vésteinn Ólason.
Vésteini Ólasyni, fyrrverandi prófessor við HÍ, verða veitt svokölluð Gad Rausings verðlaun 2010 fyrir framúrskarandi rannsóknarstörf á sviði hugvísinda. Verðlaunaféð er 800 þúsund sænskar krónur. Þetta er mikill heiður fyrir Véstein, íslenskt vísindasamfélag og þær stofnanir sem hann hefur starfað fyrir. Vésteinn hefur í rannsóknum sínum fengist mest við íslenskar fornbókmenntir og þjóðfræði, en hann hefur einnig stundað rannsóknir á bókmenntum síðari alda.

Það er akademía sögulegra hugvísinda og fornfræði í Stokkhólmi (Kungl. Vitterhets Historie och Antikvitetsakademien) sem veitir verðlaunin. Vésteinn mun taka við þeim í Stokkhólmi hinn 19. mars næstkomandi.

Verðlaunin sem Vésteinn hlýtur eru kennd við Gad Rausing, sem var sænskur iðnjöfur og jafnframt fræðimaður á sviði fornleifafræði og velgjörðamaður rannsóknarstarfa. Gad Rausing andaðist árið 2000, en verðlaunin hafa verið veitt fræðimanni á Norðurlöndum á hverju ári frá árinu 2003.

Í rökstuðningi fyrir verðlaununum að þessu sinni segir að þau séu veitt fyrir framúrskarandi framlag til að endurnýja rannsóknir á íslenskum bókmenntum og fyrir störf að varðveislu og rannsóknum íslensks handritaarfs.

Vésteinn Ólason er mag. art. í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands og hefur sömuleiðis doktorsgráðu frá sama háskóla. Hann hefur kennt íslensk fræði og bókmenntir við Háskóla Íslands, Kaupmannahafnarháskóla, Háskólann í Osló og Kaliforníuháskóla í Berkeley. Vésteinn starfaði síðast sem forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×