Golf

Birgir Leifur komst áfram og keppir um 30 laus sæti á Evrópumótaröðinni

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Birgir Leifur Hafþórsson komst áfram á lokaúrtökumótið fyrir Evrópumótaröðina.
Birgir Leifur Hafþórsson komst áfram á lokaúrtökumótið fyrir Evrópumótaröðina. Mynd/Daníel

Birgir Leifur Hafþórsson komst í gegnum 2. stig úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina í golfi og mun hann taka þátt á lokaúrtökumótinu sem hefst þann 4. desember þar sem 160 kylfingar keppa um 30 laus sæti á næst stærstu atvinnumótaröð heims. Birgir endaði í 2.-3. sæti á mótinu á Arcos Garden.

Birgir lék hringina fjóra á sex höggum undir pari en hann lék lokahringinn á -4 eða 68 höggum. Hann var tveimur höggum á eftir sigurvegaranum Steve Lewton frá Englandi sem lék samtals á 8 höggum undir pari. Birgir og Frakkinn Christophe Brazillier deildu öðru sætinu á 6 höggum undir pari. Birgir fékk um 150.000 kr. í verðlaunafé fyrir annað sætið en sigurvegarinn fékk um 270.000 kr. í verðlaunafé.

Ekki var hægt að ljúka leik í gær vegna hvassviðris og úrkomu og náði Birgir að leika 8 holur áður en keppni var frestað. Hann var þá á einu höggi undir pari en hann lék síðustu 10 holurnar í dag á þremur höggum undir pari.

Alls komast 23 kylfingar áfram á lokastigið á Arcos Garden vellinum á Spáni en alls tóku 80 kylfingar þátt. Keppt var á fjórum völlum á öðru stigi úrtökumótsins og nú tekur við gríðarleg barátta um 30 sæti á Evrópumótaröðinni. Keppt verður á tveimur völlum á lokastiginum í Katalóníu. Alls verða leiknir sex hringir á lokastiginu.




















Fleiri fréttir

Sjá meira


×