Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði eftir ríkisstjórnarfund í dag að ummæli færeyska þingmannsins, Jenis av Rana, væru honum til skammar.
Jenis, sem er formaður færeyska miðflokksins, sagði í fjölmiðlum í gær að hann myndi ekki sækja hátíðarkvöldverð með Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, og eiginkonu hennar, Jónínu Leósdóttur, í ljósi þess að þær væru samkynhneigðar.
Ummælin hafa valdið mikilli úlfúð í Færeyjum. Högni Hoydal, formaður færeyska Tjóðveldisflokksins, sagði á vefnum Vágaportalurinn að Jenis ætti að skammast sín. Undir þau ummæli tók lögmaður færeyja, Kaj Leó Johannesen.
Össur tekur í sama streng og segir ummælin Jenis honum til minnkunar. Hann tekur þó fram að framkoma þingmannsins muni ekki hafa áhrif á ævarforn tengsl Íslands og Færeyja.
Nánar verður fjallað um málið í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag.