Barnabækur fyrir bókabörn Gerður Kristný skrifar 8. nóvember 2010 06:00 Fyrir ári heyrði ég einn stjórnenda menningarþáttarins Víðsjár á Rás 1 hafa á orði að það væri erfitt að gagnrýna barnabækur því þær væru fyrir svo „afmarkaðan hóp". Barnabækur eru merkilegt nokk ekki gagnrýndar í Víðsjá en þó eru barnaleikrit tekin þar fyrir eins og ekkert sé - svona eins og barnaleikrit séu fyrir óafmarkaðri hóp en barnabækur. Þetta þýðir að leikritið um Fíusól eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur var gagnrýnt í Víðsjá en ekki bækurnar um þetta vinsæla stelpuskott. Mér varð hugsað til ummæla útvarpsmannsins í síðustu viku þegar ég las gagnrýni Helga Snæs Sigurðssonar, blaðamanns á Morgunblaðinu, um Forngripasafnið, glænýja barnabók eftir Sigrúnu Eldjárn. Þar skrifar Helgi Snær: „Það er vandaverk fyrir fullorðna manneskju að rýna í bækur sem ætlaðar eru fólki á öðru þroskastigi og getur reynst erfitt að meta hvort barnasögur höfði til barna." Degi síðar birtir Mogginn gagnrýni um barnaleikritið Dísu ljósálf eftir sama blaðamann og þá er ekki sleginn neinn varnagli. Helgi Snær fullyrðir að bókin um ævintýri ljósálfsins hafi „gengið kynslóða á milli á íslenskum heimilum og vakið aðdáun barna og foreldra…" Einmitt, góð bók hrífur fólk sama á hvaða aldri það er, sama fyrir hvaða hóp hún var upphaflega skrifuð. Ég efast um að Astrid Lindgren hafi haft 37 ára gamlar konur í huga þegar hún skrifaði Madditt og Betu en þegar ég las hana fyrst, komin á þann aldur, fannst mér þetta hljóta að vera ein skemmtilegasta bók sem ég hefði lesið. Fjögurra ára gamalt barn getur líka haft feikigaman af að heyra um útistöður Skarphéðins Njálssonar þótt höfundur Njálu hljóti að hafa ætlað söguna eldri hlustendum. Barnabækur eiga skilið nákvæmlega sömu virðingu og bækur fyrir fullorðna. Þeir sem fjalla um þær þurfa ekkert að afsaka sig eða láta eins og þeir séu að taka niður fyrir sig. Öll eigum við það sameiginlegt að hafa einhvern tímann verið börn og hljótum að geta rifjað upp hvað það var sem fékk barnshjartað til að taka kipp, hvort sem það var þegar halastjarna ógnaði lífinu í Múmíndal eða þegar Anna, Finnur, Jonni og Dísa festust inni í ævintýrahelli klyfjuð marmelaði og rótarbjór. Ég tala nú ekki um þegar Beta ratar aftur heim til Maddittar systur sinnar í yndisbókinni Sjáðu Madditt, það snjóar! Þegar slík verk eru lesin skiptir engu máli á hvaða þroskastigi við erum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Gerður Kristný Mest lesið Af hverju eru kennarar að fara í verkfall? Anton Már Gylfason Skoðun Hlýnun jarðar mun ekki valda heimsendi Sæunn Kjartansdóttir Skoðun Evrópusambandið eða nasismi Snorri Másson Skoðun Val Vigdísar Skúli Ólafsson Skoðun SVEIT – Kastið inn handklæðinu Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Opið bréf til Íslandspósts ohf. Gróa Jóhannsdóttir Skoðun Friður eða svikalogn? Hilmari Þór Hilmarssyni, prófessor, svarað Andri Þorvarðarson Skoðun Gaza getur ekki beðið lengur Hjálmtýr Heiðdal,Magnús Magnússon Skoðun Ísland yrði betra með aðild að Evrópusambandinu Jón Frímann Jónsson Skoðun Friður á jörðu Þröstur Friðfinnsson Skoðun
Fyrir ári heyrði ég einn stjórnenda menningarþáttarins Víðsjár á Rás 1 hafa á orði að það væri erfitt að gagnrýna barnabækur því þær væru fyrir svo „afmarkaðan hóp". Barnabækur eru merkilegt nokk ekki gagnrýndar í Víðsjá en þó eru barnaleikrit tekin þar fyrir eins og ekkert sé - svona eins og barnaleikrit séu fyrir óafmarkaðri hóp en barnabækur. Þetta þýðir að leikritið um Fíusól eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur var gagnrýnt í Víðsjá en ekki bækurnar um þetta vinsæla stelpuskott. Mér varð hugsað til ummæla útvarpsmannsins í síðustu viku þegar ég las gagnrýni Helga Snæs Sigurðssonar, blaðamanns á Morgunblaðinu, um Forngripasafnið, glænýja barnabók eftir Sigrúnu Eldjárn. Þar skrifar Helgi Snær: „Það er vandaverk fyrir fullorðna manneskju að rýna í bækur sem ætlaðar eru fólki á öðru þroskastigi og getur reynst erfitt að meta hvort barnasögur höfði til barna." Degi síðar birtir Mogginn gagnrýni um barnaleikritið Dísu ljósálf eftir sama blaðamann og þá er ekki sleginn neinn varnagli. Helgi Snær fullyrðir að bókin um ævintýri ljósálfsins hafi „gengið kynslóða á milli á íslenskum heimilum og vakið aðdáun barna og foreldra…" Einmitt, góð bók hrífur fólk sama á hvaða aldri það er, sama fyrir hvaða hóp hún var upphaflega skrifuð. Ég efast um að Astrid Lindgren hafi haft 37 ára gamlar konur í huga þegar hún skrifaði Madditt og Betu en þegar ég las hana fyrst, komin á þann aldur, fannst mér þetta hljóta að vera ein skemmtilegasta bók sem ég hefði lesið. Fjögurra ára gamalt barn getur líka haft feikigaman af að heyra um útistöður Skarphéðins Njálssonar þótt höfundur Njálu hljóti að hafa ætlað söguna eldri hlustendum. Barnabækur eiga skilið nákvæmlega sömu virðingu og bækur fyrir fullorðna. Þeir sem fjalla um þær þurfa ekkert að afsaka sig eða láta eins og þeir séu að taka niður fyrir sig. Öll eigum við það sameiginlegt að hafa einhvern tímann verið börn og hljótum að geta rifjað upp hvað það var sem fékk barnshjartað til að taka kipp, hvort sem það var þegar halastjarna ógnaði lífinu í Múmíndal eða þegar Anna, Finnur, Jonni og Dísa festust inni í ævintýrahelli klyfjuð marmelaði og rótarbjór. Ég tala nú ekki um þegar Beta ratar aftur heim til Maddittar systur sinnar í yndisbókinni Sjáðu Madditt, það snjóar! Þegar slík verk eru lesin skiptir engu máli á hvaða þroskastigi við erum.