Golf

Engin kreppa hjá Tiger Woods sem flytur bráðlega í 6 milljarða kr. hús

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Nýja húsið hjá Tiger Woods er engin smásmíði eða rétt um 1.500 fermetrar og kostar um 6 milljarða kr. Í garðinum eru fjórar fullkomnar æfingaflatir og er einnig hægt að slá löng högg með dræver.
Nýja húsið hjá Tiger Woods er engin smásmíði eða rétt um 1.500 fermetrar og kostar um 6 milljarða kr. Í garðinum eru fjórar fullkomnar æfingaflatir og er einnig hægt að slá löng högg með dræver.
Það eru engin kreppumerki á nýju heimili Tiger Woods sem bráðlega verður fullbyggt en það stendur við strandlengjuna í Flórída. Húsið er um 1.500 fermetrar að stærð og í garðinum er Woods með fjórar fullkomnar æfingaflatir og getur hann einnig slegið með drævernum á „æfingasvæðinu" í bakgarðinum.

Að mati bandarískra fasteignasala er verðmiðinn á húsinu um 50 milljónir bandaríkjadala eða rétt tæplega 6 milljarðar kr.

Tiger keypti húsið, sem var þá um 900 fermetrar árið 2007 en frá þeim tíma hafa iðnaðarmenn unnið að endurbótum. Þar má nefna viðbyggingu upp á tæplega 600 fermetra en í þeirri byggingu er m.a. fullkomin líkamsræktaraðstaða, fundarherbergi fyrir fjölmiðlafundi og veislusal.

Til samanburðar má nefna að handboltavöllur er um 800 fermetrar að stærð og er því gólfflöturinn í húsi Woods á við tvo handboltavelli.

Tiger Woods fór í gegnum keppnistímabilið án þess að sigra en slíkt hefur ekki gerst frá árinu 2001.Nordic Photos/Getty Images
Tiger sagði í viðtali við sjónvarpsfréttamenn á Chevron meistaramótinu um helgina að flatirnar væru í hæsta gæðaflokki með fullkomnu vökvunar og kælikerfi.

Mismunandi sandur er í sandglompunum á æfingasvæðinu og ætti ekkert að koma kylfingnum á óvart í þeim efnum á næsta tímabili. Ein sandglompa er við hverja flöt en við eina þeirra eru þrjár djúpar sandglompur líkt og þær sem einkenna breska strandvelli.

Það hefur fátt gengið upp hjá bandaríska kylfingnum undanfarna 12 mánuði. Einkalíf hans hefur verið aðalfréttaefnið og hann fór í gegnum heilt keppnistímabil án þess að landa sigri - í fyrsta sinn sem það gerist frá árinu 2001.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×