Handbolti

Einar Örn: Þessi var svakalega sætur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Einar Örn, Haukamaður og íþróttafréttamaður hjá Rúv, er hér í spjalli hjá vinnufélaga sínum, Hirti Hjartarsyni, eftir leikinn í dag. Mynd/Daníel
Einar Örn, Haukamaður og íþróttafréttamaður hjá Rúv, er hér í spjalli hjá vinnufélaga sínum, Hirti Hjartarsyni, eftir leikinn í dag. Mynd/Daníel

Gamla kempan Einar Örn Jónsson, leikmaður Hauka, var afar brosmildur er blaðamaður Vísis hitti á hann skömmu eftir að hann hafði lyft sjálfum Íslandsbikarnum.

„Þessi var svakalega sætur. Ég hef áður unnið Íslandsmeistaratitil í oddaleik og ég var eiginlega búinn að gleyma því hvað það er sætt að vinna þetta í oddaleik. Það er miklu sætara en að vinna í fjórða leik eins og í fyrra," sagði Einar kátur en hann var ánægður með úrslitakeppnina.

„Þessi úrslitakeppni var miklu skemmtilegri en í fyrra. Betri mæting og miklu meiri stemning eins og í síðustu leikjum. Sú stemning er með því besta sem maður hefur kynnst. Gleðin sem var hjá öllum var líka einstök, það voru engin leiðindi og ekkert vesen. Þessi úrslitakeppni stendur upp úr hvað varðar stemningu og jákvæðni fyrir handboltanum."

Einar Örn er búinn að vera lengi í baráttunni og hann sagði aðspurður að hann ætlaði sér ekki að leggja skóna á hilluna heldur mæta til leiks ferskur næsta vetur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×