Handbolti

Arnór: Við erum komnir nær þeim

Elvar Geir Magnússon skrifar
Arnór Atlason.
Arnór Atlason.

„Þetta eru helvíti góðir handboltamenn en það þarf ekki töfrabrögð til að stöðva þá," sagði Arnór Atlason eftir tapleikinn gegn Frökkum í dag. Arnór átti fínan leik og skoraði sex mörk í þessum seinni leik.

„Tvær fullar hallir og það er leiðinlegt að hafa ekki getað borgað áhorfendum til baka og unnið annan leikinn."

„Við gerðum jafntefli í gær og töpuðum með þremur í dag. Við erum komnir nær þeim. Það mikilvægasta sem við getum tekið út úr þessu er að við getum staðið í þeim. Það hefur vantað í hausinn á okkur í síðustu leikjum á móti þeim," sagði Arnór sem vonar að eldgosið í Eyjafjallajökli hindri það ekki að hann komist aftur til Danmerkur.

„Nú er úrslitakeppnin í Danmörku framundan. Ég vona að ég fái góðan endi með FCK og við ætlum okkur að verða Danmerkurmeistarar. Nú tjekkar maður á textavarpinu hvort maður komist ekki heim."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×