Fótbolti

Samningaviðræður Stefáns Gíslasonar og Viking ganga hægt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stefán Gíslason.
Stefán Gíslason.
Norska blaðið Aftenbladet fjallar í dag um samningaviðræður Viking við Stefán Gíslason sem eru í gangi þessa daganna en í fréttinni er bæði viðtal við Egil Østenstad, íþróttastjóri Viking og Stefán Gíslason sjálfan. Stefán Gíslason hefur verið út í kuldanum hjá danska liðin Bröndby í langan tíma en er með samning við félagið til 2012.

„Það ber ennþá mikið í milli og það er ekki bara Viking sem þarf að gefa eftir í þessum samningviðræðum. Ég tel samt að það sé möguleiki á að ná samkomulagi," sagði Egil Østenstad, íþróttastjóri Viking. Samkvæmt heimildum Aftenbladet er Stefán með 3 milljónir norskra króna í árlaun hjá Bröndby og það eigi sinn þátt í því af hverju viðræðurnar ganga illa.

„Það er margt sem þarf að gerast áður en ég fer til Viking. Peningahliðin er eitt af því sem þarf að ganga frá. Ég ber ábyrgð á fleirum en bara mér sjálfum," sagði Stefán Gíslason í viðtali við Aftenbladet.

Stefán Gíslason æfir með Bröndby en hefur ekkert fengið að spila með liðinu á þessu tímabili. Síðustu leikir hans voru þegar hann lék sem lánsmaður hjá Viking-liðinu fyrr í sumar.

„Svona hefur staðan verið hjá mér undanfarin tvö ár og þess vegna veit ég að ekkert er öruggt fyrr en það er í höfn. Á meðan við erum að tala saman þá er möguleiki á að ég fari til Viking. Ég þarf væntanlega að sætta mig við lægri laun en það verður að vera þannig að þetta skapi engin vandræði fyrir mig og mína fjölskyldu," sagði Stefán.

„Við höldum áfram að tala saman en eins og ég hef sagt áður þá mun þetta allt taka sinn tíma," sagði Egil Østenstad.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×