Fótbolti

Gylfi Einarsson á leiðinni aftur til Íslands

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Gylfi í leik með Leeds.
Gylfi í leik með Leeds. GettyImages
Gylfi Einarsson segir að 90% líkur séu á því að hann spili á Íslandi á næsta tímabili. Hinn 31 árs gamli Gylfi er að verða samningslaus hjá Brann í Noregi og ætlar að fara frá félaginu. Það var þó sól og blíða í Bergen þegar Fréttablaðið ræddi við Gylfa í gær en hann hefur rætt óformlega við Fylki um að ganga aftur í raðir félagsins.

„Þeir voru að athuga hvort það væri möguleiki á því að ég kæmist heim núna. Það verður ekki."

Gylfi segir að eftir tíu ár í atvinnumennsku sé kannski réttast að fara heim. Hann fór frá Fylki árið 2000 til Lilleström í Noregi, þaðan til Leeds á Englandi og þá aftur til Noregs, nú til Brann.

„Ég var ekkert alltaf spenntur fyrir því að koma heim en er að verða heitur núna. Það er fínt að spila aðeins heima áður en maður hættir þessu," segir Gylfi sem segir ekki öruggt að hann fari til Fylkis.

„Ég verð alltaf Fylkismaður og Fylkir er mitt félag. En ég útiloka ekkert og það gæti þess vegna verið gaman að prófa eitthvað annað," sagði Gylfi sem má semja við félag núna þar sem samningur hans er að renna út.

„Ég er ekkert að drífa mig að þessu," segir Gylfi sem segir að ef ekki væri fyrir stóra fjölskyldu væri hann kannski heitur fyrir því að ljúka ferlinum á framandi slóðum.

„Ef ég væri einn myndi ég kannski fara til Ástralíu eða eitthvað. En ég er með fjögur börn svo það er ekki að fara að gerast. Ef eitthvað virkilega spennandi býðst loka ég ekki á að prófa eitthvað annað land áður en ég kem heim," sagði Gylfi.

Hann segir einnig að það sé erfitt að slíta sig alveg frá fótboltanum en framtíð sín liggi ekki í þjálfun, umboðsmennska sé meira að hans skapi.

„Ég fer ekki að þjálfa. Kannski fer ég og læri umboðsmanninn, maður er kominn með ágætis tengslanet," segir Gylfi sem fær reglulega spurningar frá kollegum sínum hvernig í ósköpunum Íslendingar fari að því að framleiða góða leikmenn í bílförmum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×