Íslenskum skipum verður heimilt að veiða 144 þúsund tonn af norsk-íslenskri síld árið 2011. Samkomulag náðist um stjórnun veiða úr stofninum á fundi strandríkja í London í gær. Heildaraflinn verður 988 þúsund tonn sem er 33 prósenta lækkun milli ára.
Niðurstaða strandríkjanna er í fullu samræmi við vísindaráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) og þá langtíma stjórnunaráætlun sem sett hefur verið. Staða stofnsins er góð og stofninn hefur verið nýttur á sjálfbæran hátt undanfarin ár. Árgangar undanfarinna fimm ára hafa þó verið minni en á tímabilinu 1998 til 2004 þegar sterkir árgangar komu inn í stofninn. Áður samþykkt stjórnunaráætlun og stofnstærðarmat ICES gefur heildarafla upp á 988 þúsund tonn.
Fyrr í vikunni var einnig skrifað undir samning um stjórnun veiða úr kolmunnastofninum og er heildaraflamark 44.100 tonn fyrir árið 2011 sem er 90 prósenta lækkun á milli ára. Íslensk skip fá 6.500 tonn í sinn hlut.
Tekjumissir íslenskra útgerða vegna minni kvóta í síld og kolmunna nemur allt að tíu milljörðum króna, að mati hagsmunaaðila.
- shá