Golf

Tiger líklega valinn í Ryder-liðið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Þó svo Tiger Woods sé enn efstur á heimslistanum í golfi þá tókst honum ekki að næla sér í nógu mörg stig til þess að komast í bandaríska Ryder Cup-liðið.

Þetta er í fyrsta skipti á ferli Tiger sem hann á ekki sjálfkrafa sæti í ferlinum. Hann verður því að treysta á að fyrirliði liðsins, Corey Pavin, velji hann í eitt af þeim fjögur aukasætum sem hann á inni.

Pavin mun velja í liðið þann 7. september og hann viðurkenndi á blaðamannafundi í gær að Tiger væri ofarlega á sínum lista yfir þá aukakylfinga sem hann mun taka inn í liðið.

Það voru talsverð batamerki á spilamennsku Tiger á PGA-meistaramótinu þó svo hann sé enn langt frá sínu besta.

Það er mikil pressa á Pavin að velja Tiger enda hefur það meðal annars mikil áhrif á sjónvarpsáhorf hvort Tiger spilar eður ei.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×