Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, telur rétt að fresta þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave ef ekki verður búið að birta skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis fyrir kjördag. Hann telur fullvíst að skýrslan varpi frekara ljósi á Icesave málið.
Til stóð að birta skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um næstu mánaðamót. Í gær var hins vegar tilkynnt að skýrslan komi ekki út fyrr en í fyrsta lagi í lok febrúar. Fyrirhuguð þjóðaratkvæðagreiðsla um Iceasave á einmitt að fara fram fyrsta laugardaginn í mars.
Rætt var um málið á ríkisstjórnarfundi í morgun. „Það voru sterk sjónarmið uppi að skýrslan þurfi að vera komin fram ef að í henni eru upplýsingar sem að tengjast þessu máli þá væri afar óheppilegt að kosningin hefði farið fram rétt áður," segir Steingrímur. „Það væri þá upplýsingar sem almenningur hefði rétt á að hafa í höndum 3.30 persónulega finnst mér sjálfum að það sé ótækt ef að á leiðinni séu mikilsverðar upplýsingar eða gögn sem almenningur hefði rétt á að hafa til skoðunar áður en að kosningin fer fram."
Frestun kosningadags á ekki samkvæmt Steingrími að hafa áhrif á utankjörfundaratkvæðagreiðslu sem hefst á fimmtudag. Hann segir bagalegt birting skýrslunnar dragist og telur víst að hún muni varpa frekari ljósi á Icesave málið.
„Þannig að það er ástæða til að ætla að minnsta kosti samhengi hlutanna skýrist í skýrslunni." Hann óttast ekki óeirðir í kjölfar útgáfu skýrslunnar og segist hafa fulla trú á því að menn skoði þetta og það eigi ekki að þurfa „valda uppþotum eða neinu slíku."