Fótbolti

Björn Bergmann skoraði og fór í markið fyrir Stefán Loga

Elvar Geir Magnússon skrifar
Björn Bergmann kom mikið við sögu í norska boltanum í dag.
Björn Bergmann kom mikið við sögu í norska boltanum í dag.

Björn Bergmann Sigurðarson hafði í nægu að snúast í leik Lilleström og Kongsvinger í norsku úrvalsdeildinni í dag. Leikurinn endaði með jafntefli 2-2.

Eftir markalausan fyrri hálfleik komst Kongsvinger tveimur mörkum yfir. Björn minnkaði muninn með þrumuskoti á 65. mínútu og liðsfélagi hans náði svo að jafna á 83. mínútu.

Í uppbótartíma fékk svo markvörður Lilleström, Stefán Logi Magnússon, að líta rauða spjaldið. Stefán braut af sér rétt fyrir utan teig og dæmd var aukaspyrna.

Þar sem Lilleström hafði klárað allar þrjár skiptingar sínar fór Björn Bergmann í markið. Hann fékk þó ekki skot á sig, Kongsvinger skaut í varnarvegginn úr aukaspyrnunni og svo flautaði dómarinn af.

Lilleström er í áttunda sæti deildarinnar en Kongsvinger í því fimmtánda og næst neðsta.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×