Spretthlaupamaðurinn Usain Bolt frá Jamaíka og 400 metra hlaupakonan Sanya Richards frá Bandaríkjunum voru í gærkvöld valin frjálsíþróttafólk ársins af alþjóða frjálsíþróttasambandinu.
Bolt setti sem kunnugt er heimsmet í bæði 100 og 200 metra hlaupum á heimsmeistaramótinu í frjálsíþróttum.
„Þetta er búið að vera ótrúlegt ár hjá mér," sagði Bolt að tilefninu en hann náði þessum árangri sínum þrátt fyrir að hafa meiðst á löpp í apríl þegar hann lenti í bílslysi.
„Ég þurfti að setjast niður og endurskipuleggja markmið mín aðeins en ég lagði gríðarlega mikið á mig í endurhæfingunni og er stoltur af þeim árangri sem ég náði," sagði Bolt.
Richards, sem vann einnig til verðlaunanna árið 2006, vann öll sex gullmótin í sinni keppnisgrein auk þess að vinna gullverðlaun á heimsmeistaramótinu.