Handbolti

Sigfús: Súrt að safna silfrum

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Sigfús Sigurðsson huggar félaga sinn í kvöld.
Sigfús Sigurðsson huggar félaga sinn í kvöld. Mynd/Anton

Sigfús Sigurðsson hefur ekki lagt það í vana sinn að fela tilfinningar sínar og á því var enginn breyting eftir ósigur Vals gegn Haukum í kvöld. „Þetta er mjög svekkjandi. Við ætluðum að vinna þetta og fara með þetta í oddaleik en það lá ekki fyrir okkur í dag. Þeir voru skrefinu á undan okkur allan leikinn og áttu sigurinn skilinn. Ég óska þeim til hamingju með það," sagði Sigfús eftir leikinn.

 

„Við lendum tvisvar fjórum mörkum undir í fyrri hálfeik og komum til baka en náum ekki að yfirstíga það og jafna og komast yfir. Þá verður maður bara að bíta í súra eplið og fá silfur."

 

Sigfús gefur lítið fyrir þær afsakanir að það vanti nokkra lykilmenn í lið Vals og segir þá sem spila eiga að fylla skörð þeirra sem vantar. „Það skiptir ekki máli hvort menn eru heilir eða meiddir. Ef menn eru í standi sem eru að spila þá eigum við að klára þetta en við gerðum það ekki. Þeir voru bara betri en við í kvöld."

 

Hægra hné Sigfúsar hefur angrað hann í vetur og nú hugsar hann um að ná sér heilum áður en ákvörðun verður fyrir næsta tímabil. „Nú er bara að sjá hvað gerist með hnéð. Það er bara bull að ég sé á leiðinni út aftur. Það yrði eitthvað mikið að gerast. Nú er stefnan að koma hnénu í lag og spila áfram og sjá hvar ég stend þegar undirbúningurinn byrjar. Ef hnéð verður í lagi þá verð ég með. Ef það er ekki í lagi þá verðum við að bíða og sjá hvort það kemst í lag," sagði Sigfús í leikslok.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×