Spænskir fjölmiðlar greina frá því að Joan Laporta, forseti Barcelona, hafi sett það í forgang hjá sér að fá Cesc Fabregas aftur til félagsins frá Arsenal. Hann sé þess utan búinn að taka frá peninga fyrir kaupunum.
Það hefur alla tíð truflað Laporta að Fabregas hafi verið seldur frá félaginu. Arsenal nældi í hann árið 2003 þegar Joan Gaspart hafði sagt af sér sem forseti og bráðabirgðastjórn var við völd.
Laporta tók við fljótlega í kjölfarið og alla tíð hefur það verið markmið hjá honum að fá Fabregas aftur til félagsins.
Fabregas á marga vini hjá félaginu og lét hafa eftir sér nýlega að allir leikmenn myndu vilja spila með þessu frábæra Barcelona-liði.
Börsungar eru taldir ætla að bæta við fjórum leikmönnum í hóp sinn fyrir næsta tímabil.