Handbolti

Valdimar: Allt eða ekkert

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Valdimar Þórsson í leik með HK í vetur.
Valdimar Þórsson í leik með HK í vetur. Mynd/Daníel
Valdirmar Þórsson, leikmaður HK, segir að það sé um allt eða ekkert að ræða fyrir sína menn er þeir mæta Völsurum á útivelli í kvöld.

Um er að ræða oddaleik liðanna í undanúrslitum úrslitakeppni N1-deildar karla. Leikurinn fer fram í Vodafone-höllinni og hefst klukkan 19.30.

Valur hefur ekki enn tapað á heimavelli sínum í vetur en Valdimar segir að HK-ingar séu hvergi bangnir þrátt fyrir það.

„Það er síðasti séns að ná sigri þarna á þessum tímabili og ég vona að við getum eitthvað í kvöld," sagði Valdimar. „Valur hefur ekki verið sama lið á heima- og útivelli og þeir verða pottþétt rétt stemmdir fyrir leikinn í kvöld. Ég vona að við verðum það líka."

Valdimar segir að sínir menn þurfi meiri hraða í sóknarleikinn sinn til að eiga möguleika í kvöld. „Við vorum staðir og hægir í sóknarleiknum síðast þegar við spiluðum við Val á útivelli. Við þurfum meiri hraða í sóknarleikinn. Við þurfum líka að leika góða vörn og fá góða markvörslu eins og í öllum leikjum."

Hann segir einnig að HK sé að toppa á réttum tíma. „Við áttum góðan lokasprett í deildinni og ég tel að við séum að toppa á réttum tíma. Það verðum við svo að sýna í kvöld. Við erum að fara að spila á erfiðasta útivelli landsins og það er um allt eða ekkert fyrir okkur að ræða."

Valdimar vonast til þess að Vodafone-höllinn verði þétt setin og mikil stemning verði á leiknum. „Þetta er það skemmtilegasta sem við gerum - að spila í úrslitakeppninni fyrir fullu húsu. Þetta er ástæðan fyrir því að við erum í þessu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×