Handbolti

Gunnar Magnússon: Dæmigert fyrir okkur þessa dagana

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Gunnar Magnússon.
Gunnar Magnússon. Fréttablaðið
„Þetta er bara dæmigert fyrir það að það er ekki alveg allt að ganga upp hjá okkur eins og staðan er í dag," sagði Gunnar Magnússon, þjálfari HK eftir leikinn gegn Akureyri sem lið hans tapaði naumlega í kvöld.

HK sýndi góða baráttu með því að koma sér aftur inn í leikinn eftir að hafa verið fjórum mörkum undir þegar tíu mínútur lifðu leiks og þeir voru hreint ótrúlega nálægt því að jafna. Engu að síður var 27-26 tap staðreynd fyrir HK.

„Ég er ánægður með varnarleikinn og Sveinbjörn var góður fyrir aftan. Sóknarleikurinn var ekkert frábær, við eigum aðeins inni þar, en ég er engu að síður ánægður með karakterinn í liðinu. Baráttan var alveg til fyrirmyndar og við gáfumst aldrei upp. Ég verð að hrósa strákunum fyrir þennan leik," sagði Gunnar sem sagði að jafntefli hefðu verið sanngjörn úrslit.

"Við vorum í vandræðum í hornunum, við förum með hátt í tíu færi þar og Flóki var okkur erfiður. Þetta var kaflaskiptur leikur og á þessum slæmu köflum förum við illa með færin. Við verðum að fara að nýta hornin betur, við sköpuðum ágæt færi en nýttum þau ekki. Flóki sá við okkur."

„Við tökum bara einn leik fyrir í einu og þessi leikur var skref upp á við. Við vitum að veturinn verður erfiður en við verðum bara að halda áfram. Ef við höldum áfram á sömu braut þá eiga stigin eftir að detta fyrir okkur," sagði Gunnar Magnússon.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×