Íslensku keppendurnir á Smáþjóðaleikunum hafa verið iðnir við að setja met í Kýpur en í gær settu frjálsíþróttafólkið Ásdís Hjálmsdóttir, Jóhanna Ingadóttir og Bergur Ingi Pétursson öll leikjamet.
Ásdís Hjálmsdóttir bætti í gær eigið leikjamet í spjótkasti frá árinu 2005 um tæpa tvo metra, Jóhanna Ingadóttir bætti leikjametið í þrístökki um 37 cm og Bergur Ingi stórbætti leikjametið í sleggjukasti um 6,80 metra þegar hann kastaði 70,60 metra.
Alls eiga íslenskir frjálsíþróttakeppendur tólf leikjamet á smáþjóðaleikunum en leikarnir á Kýpur eru þeir þrettándu í röðinni.
Auk metanna sem Ásdís, Jóhanna og Bergur Ingi settu í gær á eftirtalið frjálsíþróttafólk leikjamet:
* Jón Arnar Magnússon, 110m grindahlaup, 13,91 sek. (Reykjavík 1997, Íslandsmet).
* Einar Karl Haraldsson, Hástökk, 2,25 metrar (San Marino 2001, Íslandsmet).
* Pétur Guðmundsson, Kúluvarp, 19,60 metrar (Malta 1995).
* Vésteinn Hafsteinsson, Kringlukast, 59,60 metrar (Luxemborg 1995).
* Sigurður Einarsson, Spjótkast, 80,30 metrar (Andorra 1991).
* Martha Ernstsdóttir, 5000m, 16:19,31 mín (Luxemborg 1995).
* Silja Úlfarsdóttir, 400m grindahlaup, 59,10 sek. (Mónakó 2007).
* Þórdís Gísladóttir, Hástökk, 1,86 metrar (Reykjavík 1997).
* Þórey Edda Elísdóttir, Stangarstökk, 4,40 metrar (Andorra 2005).