Handbolti

Heimir: Eðlilegt framhald

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sigurður Eggertsson lék síðustu mínúturnar með Val í kvöld.
Sigurður Eggertsson lék síðustu mínúturnar með Val í kvöld. Mynd/Anton
Heimir Ríkharðsson, aðstoðarþjálfari Vals, var ánægður með sigur sinna manna á FH í Kaplakrika í kvöld.

Valur vann fimm marka sigur á FH, 32-27, eftir að hafa verið með eins marks forystu í hálfleik sem var jafn og spennandi.

„Við vorum kannski of æstir í fyrri hálfleik og varnarleikurinn var ekki nógu góður. Við töluðum svo um það í hálfleik að við þyrftum að róa okkur niður og klára þennan leik."

„Ég held að við höfum sýnt að þegar við spilum okkar besta bolta erum við illviðráðanlegir."

Hann segir sigurinn í kvöld í takti við gengi liðsins að undanförnu.

„Þetta var ágætur sigur og eðlilegt framhald af því sem verið hefur hjá okkur. Við höfum verið mjög öflugir síðan í undanúrslitum bikarsins," sagði Heimir.

Sigurður Eggertsson lék aðeins með Val síðasta stundarfjórðunginn en nýtti þá mínútur sínar vel og skoraði þrjú mörk.

„Maður lætur litlu kubbana spila fyrst og svo kemur maður inn með trompið í lokin," sagði Heimir og hló. „En Sigurður er reyndar búinn að vera aðeins meiddur og því ákváðum við að hvíla hann aðeins í kvöld."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×