Eiður Smári Guðjohnsen ráðleggur Svíanum Zlatan Ibrahimovic að aðlaga sig leikstíl Barcelona eins fljótt og hann getur þegar félagaskipti hans frá Inter í Mílanó eru frágengin. Þetta kemur fram í viðtali við Eið í Aftonbladet í dag.
Blaðamaður sænska blaðsins mætti á æfingu hjá Barcelona í London í gær. Hann spurði Lionel Messi og Aleksandr Hleb um yfirvofandi komu Ibrahimovic til Barcelona frá Inter en þeir neituðu að svara honum. Þá vatt hann sér upp að Eiði Smára sem gaf sér tíma fyrir hann og sagði að ef Ibrahimovic verður fljótur að aðlaga sig muni hann slá í gegn á Spáni.
Þó flest bendi til þess að Zlatan sé á leið til Barcelona er þó ekki víst að hann og Eiður Smári verði samherjar því Börsungar ku vera tilbúnir að selja Eið.