Einn leikur fór fram í þýsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu er botnlið Herthu Berlínar náði jafntefli gegn toppliði Leverkusen á heimavelli, 2-2.
Kólumbíski framherjinn Adrian Ramos kom Herthu yfir strax á áttundu mínútu en gestirnir náðu ekki að jafna metin fyrr en á 76. mínútu með marki Toni Kroos. Hann er í láni hjá félaginu frá Bayern München.
Það var svo tyrkneski táningurinn Burak Kaplan sem virtist hafa tryggt Leverkusen með marki á 90. mínútu í sínum fyrsta leik í úrvalsdeildinni.
En Ramos náði að jafna metin með skalla eftir horn í uppbótartíma og þar við sat.
Leverkusen er þó enn taplaust á toppnum með 32 stig, fjórum stigum meira en Bremen og Schalke sem eiga bæði leik til góða um helgina. Hertha er á botninum með einungis sex stig og er sjö stigum frá öruggu sæti.
