Skíðakappinn Hermann Maier tilkynnti í dag að hann væri hættur keppni í alpagreinum í skíðum vegna þrálátra meiðsla.
Maier er 36 ára gamall Austurríkismaður og með allra frægustu skíðaköppum heims undanfarin þrettán ár.
Hann vann gullverðlaun í stórsvigi og risasvigi á vetrarólympíuleikunum í Nagano árið 1998 og fékk svo silfur og brons á leikunum í Tórínó árið 2006.
Hann vann einnig á sínum ferli þrjá heimsmeistartitla auk þess sem hann var sigursæll á heimsbikarmótaröðinni þar sem hann fagnaði sigrum í alls 54 mótum.
Maier meiddist á hné í mars síðastliðnum en hafði stefnt að því að keppa í Kanada í lok næsta mánaðar.
„Ég hef ákveðið að ljúka mínum ferli í skíðaíþróttum. Ákvörðunin var reyndar tekin fyrir mig,“ sagði hann tárvotur á blaðamannafundi í dag.
Maier slasaðist lífshættulega í mótorhjólaslysi í ágúst árið 2001 og missti hann af þeim sökum af öllu næsta keppnistímabili sem og Ólympíuleikunum í Salt Lake City í Bandaríkjunum árið 2002.
Hann byrjaði þó aftur að keppa í janúar 2003 og vann marga frækna sigra eftir það.