Handbolti

Verða fjögur lið jöfn í öðru til fimmta sæti?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Víðir Ólafsson og félagar í HK taka á móti toppliði Hauka í kvöld.
Ólafur Víðir Ólafsson og félagar í HK taka á móti toppliði Hauka í kvöld. Mynd/Valli

Sú skemmtilega staða gæti komið upp eftir leik HK og Hauka í N1-deild karla í kvöld að fjögur lið verði jöfn með ellefu stig í 2. til 5. sæti deildarinnar þegar deildin fer í jóla- og EM-frí. Til að svo verði þurfa HK-ingar þó að vinna topplið Hauka á heimavelli sínum í Digranesi.

HK-liðið hefur verið á góðu skriði og er búið að vinna þrjá leiki í röð í deild og bikar. Haukar hafa að sama skapi sýnt mesta stöðuleika í vetur en liðið hefur enn ekki tapað í N1-deildinni og getur náð fimm stiga forskoti með sigri í leiknum í kvöld.

HK getur náð FH, Akureyri og Val að stigum með sigri en liðið getur þó ekki komist upp í 4. sætið og inn í deildarbikarinn þar sem liðið er með slakari árangur í innbyrðiskeppni milli FH, Akureyri og Val.

Þetta er síðasta leikur N1-deildarinnar áður en hún leggst í dvala í tvo mánuði en næstu leikir hennar munu ekki fara fram fyrr en 4. febrúar eða eftir að Evrópukeppninni í Austurríki líkur.

Leikur HK og Hauka fer fram í Digranesi og hefst klukkan 19.30.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×