Nú þegar eru fyrstu kylfingarnir farnir af stað á fyrsta keppnisdegi Masters-mótsins sem fer fram í Georgíu-fylki í Bandaríkjunum.
Það var Ian Woosnam sem sló fyrsta höggið á mótinu en hann er í holli með þeim Chaz Reavie og Briny Baird.
Augu flestra munu beinast að Tiger Woods sem hefur keppni rétt fyrir sex í dag að íslenskum tíma. Þetta er hans fyrsta risamót í átta mánuði en hann hefur verið að jafna sig á aðgerð á hné.
Með sigri á mótinu vinnur hann sinn fimmta græna jakka en síðast vann Tiger þetta mót árið 2005. Það er Suður-Afríkumaðurinn Trevor Immelman sem á titil að verja á mótinu.
Það er búist við því að þeir Phil Mickelson og Padraig Harrington munu veita Tiger harða samkeppni.
Ekki má gleyma Ástralinum Gerg Norman - hvíta hákarlinum - sem vann sér þátttökurétt á mótinu með því að ná þriðja sæti á opna breska meistaramótinu í fyrra.
Tiger Woods hefur unnið fjórtán risamót í golfi á sínum ferli. „Endurhæfingin hefur tekið smá tíma en í raun hefur það komið mér á óvart hversu fljótt sama gamla tilfinningin kom aftur hjá mér. Mér líður nú eins og alltaf fyrir stórmót," sagði Woods í gær.
Bein útsending frá mótinu hefst á Stöð 2 Sport klukkan 21 í kvöld, eða strax að loknum leik KR og Grindavíkur í Iceland Express deild karla.