Fótbolti

Kristján Örn skoraði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kristján Örn Sigurðsson, leikmaður Brann.
Kristján Örn Sigurðsson, leikmaður Brann. Mynd/Scanpix
Kristján Örn Sigurðsson skoraði mark Brann í 1-1 jafnteflisleik gegn Viking á útivelli í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær.

Markið skoraði hann á 55. mínútu og var hann valinn maður leiksins af mörgum norskum fjölmiðlum. Hann lék allan leikinn, rétt eins og Ólafur Örn Bjarnason og Birkir Már Sævarsson. Gylfi Einarsson og Ármann Smári Björnsson voru á varamannabekk Brann.

Birkir Bjarnason lék fyrstu 70 mínúturnar í liði Viking.

Molde vann 2-0 sigur á Fredrikstad. Garðar Jóhannsson lék ekki með síðarnefnda liðinu vegna meiðsla.

Stabæk vann 5-0 stórsigur á Start. Pálmi Rafn Pálmason var á varamannabekk Stabæk og kom ekki við sögu í leiknum.

Bodö/Glimt og Lilleström gerðu 1-1 jafntefli þar sem Björn Bermann Sigurðarson kom inn á sem varamaður í liði Lilleström á 77. mínútu.

Þá gerðu Lyn og Odd Grenland einnig 1-1 jafntefli. Indriði Sigurðsson lagði upp mark Lyn í leiknum og lék allan leikinn, rétt eins og Theodór Elmar Bjarnason hjá Lyn og Árni Gautur Arason í marki Odd Grenland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×