Spænska úrvalsdeildarfélagið Real Madrid hefur neitað frétt enska dagblaðsins The Guardian um að félagið hafi sent útvöldum félögum í ensku úrvalsdeildinni fax með lista níu leikmanna sem eru til sölu.
Real Madrid er sagt vilja selja þessa leikmenn til að fjármagna kaup á þeim Kaka og Cristiano Ronaldo auk annarra sem kunna að koma síðar í sumar.
Leikmennirnir níu sem eru sagðir falir fyrir rétt verð eru þeir Arjen Robben, Klaas-Jan Huntelaar, Ruud van Nistelrooy, Rafael van der Vaart, Westley Sneijder og Royston Denthe - allir frá Hollandi, ásamt þeim Mahamadou Diarra, Gabriel Heinze og Javier Saviola.
Real Madrid sendi frá sér yfirlýsingu um málið og sagði að það myndi aldrei nota slík vinnbrögð sem er lýst í fréttinni.
„Ef þetta væri rétt væri um mikla vanvirðingu gagnvart þessum leikmönnum að ræða."