Augu margra á Masters mótinu í golfi munu beinast að hollinu sem hefur leik klukkan 17.35 að íslenskum tíma. Þá slá þeir Tiger Woods og Phil Mickelson af fyrsta teig, hálftíma á undan forystusauðunum Angel Cabrera og Kenny Perry.
Það þarf þó mikið að gerast til að Woods og Mickelson, sem eru á fjórum höggum undir pari, veiti þeim félögum keppni. Cabrera og Perry eru á ellefu höggum undir pari en þar á eftir koma Chad Campbell, Jim Furyk, Steve Stricker og Rory Sabbatini.
Woods hefur þrisvar unnið mótið, en hann varð annar í fyrra á eftir Trevor Immelman.
Útsending á Stöð 2 Sport hefst klukkan 18.00 og stendur yfir þar til sigurvegarinn verður krýndur, sem verður líklega um 23 í kvöld.