WBA-léttveltivigtarmeistarinn Amir Khan er fullur sjálfstrausts fyrir fyrstu titilvörn sína þegar hann mætir Dmitriy Salita í Newcastle á Englandi um næstu helgi.
Hinn 22 ára gamli Khan er sannfærður um að hann geti klárað bardagann gegn hinum taplausa Salita með rothöggi.
„Ég er sannfærður um að ég geti klárað þetta með rothöggi. Ég væri tilbúinn að setja pening á að þetta klárist með rothöggi. Þetta verður án nokkurs vafa frábær bardagi og ég mæti meira en tilbúinn í hringinn," segir Khan fullur sjálfstrausts í viðtali við Sky Sports fréttastofuna í dag.